FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands10 hours ago
Í landi jarðarinnar Geirhildargarða í Öxnadal er þessi fallega stekkjartóft, skammt frá þjóðvegi 1. Hún er á meðal fjölda annarra minja sem mældar eru upp þessa dagana í dalnum. #fornleifaskráning #FSÍ #öxnadalur
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands20 hours ago
Undanfarnar tvær vikur hafa sérfræðingar á Fornleifastofnun unnið að uppgrefti og öðrum fornleifarannsóknum í Odda á Rangárvöllum. Er það fornleifahluti Oddarannsóknarinnar sem hlaut styrk úr sjóðnum Ritmenning íslenskra miðalda. Í meðfylgjandi myndbandi sem Punktaský gerði á dögunum má sjá afrakstur uppgraftarins; fornan manngerðan helli og stóra tóft framan við hann.
Fornleifastofnun Íslands
Manngerður hellir við Odda á Suðurlandi
Fengum tækifæri í gær að fara fyrir hönd Fornleifastofnunar og Oddarannsóknarinnar að skanna manngerðan helli við Odda á Suðurlandi. https://www.facebook.com...
youtube.com
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 week ago
Í sumar rannsökuðu starfsmenn Fornleifastofnunar landshætti Staðarhóls í Dalasýslu. Orustuhólmi í Tjaldaneslandi var einn þeirra stað sem var skráður. Staðurinn sjálfur er magnaður og við slíka staði verða oft til sagnir sem varðveitast í örnefnum eða sögum. Slíkar sagnir eru oft frábærar vísbendingar um hugmyndaheim fyrr á tíð og hugmyndir fólks um landið.

Staðarins er getið í Kormáks sögu og þar börðust þeir Hólmgöngu-Bersi og Þorkell tanngnjóstur: „Þorkell mælti: „Þat sverð er þú hefir, Bersi, er lengra en log liggja til.“ „Þat skal eigi vera," segir Bersi, tekr upp Hvíting ok tvíhendir; høggr Þorkel banahogg.“

Í sóknalýsingu C. Magnusen 1842 segir: „Við fyrrnefnda Ósa, innan Tjaldanes er Orustuhólmi. Þar eru dys mörg, sem votta að þar hafi forðum mannfall orðið.“

Hólminn er á merkjum nokkurra jarða, en þar fundust engar dysjaleifar. Þar sjást þó óljós ummerki um mannvirki.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands2 weeks ago
Fornleifaskráning er undirstaða annarra fornleifarannsókna og er sérstaklega mikilvæg til þess að fá yfirsýn yfir eðli og magn minja innan hvers landsvæðis og fyrir landið allt. Það safnast þegar saman kemur. Nú er vettvangsskráningu fornminja í Rangárþingi ytra lokið og fyrr í sumar kom út áfangaskýrsla fyrir fjórða og næstsíðasta áfangann. Verkefnið hófst árið 2006 og lauk vettvangsvinnu árið 2015. Ljóst er því að fornleifaskráning er þolinmæðisverk líkt og aðrar fornleifarannsóknir. Fornleifastofnun óskar sveitarfélaginu Rangárþingi ytra til hamingju með þann merka áfanga að hafa lokið fyrstu umferð fornleifaskráningar. Nálgast má nýjustu skýrslurnar hér: https://www.researchgate.net/publication/343255447_FS634_06194_Rangarthingytra_afangaskyrsla_IV_I_bindi og hér: https://www.researchgate.net/publication/343255902_FS634_06194_Rangarthingytra_afangaskyrsla_IV_II_bindi
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands4 weeks ago
Þessa dagana er unnið að vettvangsrannsóknum á Staðarhóli og nágrenni. Þetta fyrsta ár verkefnisins er áherslan lögð á að skrá menningarlandslag svæðisins með því að afla vitneskju um landshætti og minjadreifingu á jörðum í Staðarhólsdal sem voru ýmist hjáleigur Staðarhóls eða í eigu Sturlunga á miðöldum. Rannsóknin felst í skráningu menningarminja á öllu svæðinu og greiningu á landsháttum. Við hvetjum alla til að fylgjast með fréttum af rannsókninni á facebook-síðu hennar: https://www.facebook.com/Sta%C3%B0arh%C3%B3ll-%C3%AD-D%C3%B6lum-H%C3%B6fu%C3%B0b%C3%B3l-%C3%AD-minjum-s%C3%B6gu-og-sagnaritun-110730747382093
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 month ago
Í vikunni kom út minja-og göngukort af Flatey í Breiðafirði. Kortið byggir á skráningu og uppmælingu menningarminja í eynni sem Fornleifastofnun Íslands og Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna stóð fyrir árið 2014. Kortagerðin er styrkt af Breiðafjarðarnefnd og verkið unnið í samstarfi við hönnunarstofuna Kolofon. Á kortinu eru helstu minjastaðir og fróðleikur um sögu eyjunnar. Kortið er hið fyrsta í kortaröð Fornleifastofnunar og standa vonir til að fleiri kort fylgi í kjölfarið. Markmiðið með kortunum er að kynna minjar og menningarlandslag á völdum svæðum. Formleg afhending Flateyjarkortsins fór fram í ferjunni Særúnu á siglingu um Breiðafjörð nú á dögunum. Auk starfsmanna Fornleifastofnunar voru viðstaddir fulltrúar frá Breiðafjarðarnefnd, Minjastofnun Íslands, Umhverfisráðuneyti og Náttúrufræðistofnun.

ÞJÓNUSTA

SKRÁNING

Fornleifaskráning er skipuleg kortlagning allra fornleifa, þ.e. mannvistarleifa sem eru eldri en 100 ára og teljast því friðhelgar skv. þjóðminjalögum. Frá árinu 1993 hefur Fornleifastofnun Íslands unnið að fornleifaskráningu víða um land og unnið jafnt og þétt að því að bæta skráningarkerfið, geymslu og miðlun gagnanna. Fornleifaskráningu er skipt í svæðis-, aðal- og deiliskráningu.

Frekari upplýsingar má finna hér

UPPGRÖFTUR

Fjölmargir uppgreftir eru gerðir á vegum Fornleifastofnunar á hverju ári. Þar er bæði um að ræða stór verkefni sem eru unnin á mörgum árum og smærri fornleifakannanir sem oft eru gerðar fyrir framkvæmdaaðila, t.d. Vegagerðina eða sveitarfélög og verkfræðistofur sem fyrirhuga byggingar og aðrar stórframkvæmdir.

ÁHÆTTUMAT

Góð skipulags- og hönnunarvinna byggir á þekkingu á landsháttum og áhrifum byggingar á umhverfið. Við sérhæfum okkur í áhættumati á menningarminjum. Hafa samband.

FORVARSLA GRIPA

Við forverjum og skráum gripi. Hafið samband fyrir frekari upplýsingar.

MENNINGARMINJAR OG FERÐAMENNSKA

Okkar fólk hefur mikla reynslu af menningartengdri ferðamennsku. Sjá nánar hér.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
– Í vinnslu.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn starfar í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins. Síða skólans.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna er verkefni sem Fornleifastofnun Íslands hefur tekið þátt í undanfarin þrjú ár ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Síða skólans.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)