FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands5 days ago
Fornleifaskráning er undirstaða annarra fornleifarannsókna og er sérstaklega mikilvæg til þess að fá yfirsýn yfir eðli og magn minja innan hvers landsvæðis og fyrir landið allt. Það safnast þegar saman kemur. Nú er vettvangsskráningu fornminja í Rangárþingi ytra lokið og fyrr í sumar kom út áfangaskýrsla fyrir fjórða og næstsíðasta áfangann. Verkefnið hófst árið 2006 og lauk vettvangsvinnu árið 2015. Ljóst er því að fornleifaskráning er þolinmæðisverk líkt og aðrar fornleifarannsóknir. Fornleifastofnun óskar sveitarfélaginu Rangárþingi ytra til hamingju með þann merka áfanga að hafa lokið fyrstu umferð fornleifaskráningar. Nálgast má nýjustu skýrslurnar hér: https://www.researchgate.net/publication/343255447_FS634_06194_Rangarthingytra_afangaskyrsla_IV_I_bindi og hér: https://www.researchgate.net/publication/343255902_FS634_06194_Rangarthingytra_afangaskyrsla_IV_II_bindi
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands3 weeks ago
Þessa dagana er unnið að vettvangsrannsóknum á Staðarhóli og nágrenni. Þetta fyrsta ár verkefnisins er áherslan lögð á að skrá menningarlandslag svæðisins með því að afla vitneskju um landshætti og minjadreifingu á jörðum í Staðarhólsdal sem voru ýmist hjáleigur Staðarhóls eða í eigu Sturlunga á miðöldum. Rannsóknin felst í skráningu menningarminja á öllu svæðinu og greiningu á landsháttum. Við hvetjum alla til að fylgjast með fréttum af rannsókninni á facebook-síðu hennar: https://www.facebook.com/Sta%C3%B0arh%C3%B3ll-%C3%AD-D%C3%B6lum-H%C3%B6fu%C3%B0b%C3%B3l-%C3%AD-minjum-s%C3%B6gu-og-sagnaritun-110730747382093
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands4 weeks ago
Í vikunni kom út minja-og göngukort af Flatey í Breiðafirði. Kortið byggir á skráningu og uppmælingu menningarminja í eynni sem Fornleifastofnun Íslands og Fornleifafélag Barðstrendinga og Dalamanna stóð fyrir árið 2014. Kortagerðin er styrkt af Breiðafjarðarnefnd og verkið unnið í samstarfi við hönnunarstofuna Kolofon. Á kortinu eru helstu minjastaðir og fróðleikur um sögu eyjunnar. Kortið er hið fyrsta í kortaröð Fornleifastofnunar og standa vonir til að fleiri kort fylgi í kjölfarið. Markmiðið með kortunum er að kynna minjar og menningarlandslag á völdum svæðum. Formleg afhending Flateyjarkortsins fór fram í ferjunni Særúnu á siglingu um Breiðafjörð nú á dögunum. Auk starfsmanna Fornleifastofnunar voru viðstaddir fulltrúar frá Breiðafjarðarnefnd, Minjastofnun Íslands, Umhverfisráðuneyti og Náttúrufræðistofnun.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands4 weeks ago
Þessa dagana er unnið að deiliskráningu vegna lagningu jarðstrengs í Meðallandi. Á Efri-Steinsmýri er þetta snotra náðhús við eina af bæjarrústunum #fornleifaskráning #FSÍ
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 month ago
Fornleifastofnun hlaut nýlega erlendan styrk til þess að ljúka við rannsókn á legsteinum í Borgarfirðinum.

Á ensku heitir verkefnið 'The archaeology of death and multispecies history.' Markmið rannsóknarinnar er margþætt en eitt að undirmarkmiðum hennar er að greina þróun hugmynda um kyngervi í íslensku samfélagi, frá 16. öld og til dagsins í dag.

Með fornleifafræðilegum aðferðum er hægt að draga saman vitneskju um þætti sem geta varpað ljósi á hugmyndir og þróun kyngervis sem endurspeglast í gerðfræði og áletrunum legsteina. Legsteinar frá 16. öld og yngri eru mikilvægar samtímaheimildir um ólíka samfélagshópa. Greining á legsteinum mun kalla fram þá einstaklinga sem sjaldan hafa fengið rödd í fræðunum til þessa og mun þetta verkefni hjálpa okkur að skilja betur stöðu kynjanna, óháð þjóðfélagsstigum, í fortíðinni.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands2 months ago
Meint íshústóft í landi Gunnólfsvíkur. Tóftin er á meðal þeirra minja sem fornleifafræðingar Fornleifastofnunar hafa skráð á síðustu dögum en unnið er að skráningu á afmörkuðu svæði í Langanesbyggð fyrir sveitarfélagið

ÞJÓNUSTA

SKRÁNING

Fornleifaskráning er skipuleg kortlagning allra fornleifa, þ.e. mannvistarleifa sem eru eldri en 100 ára og teljast því friðhelgar skv. þjóðminjalögum. Frá árinu 1993 hefur Fornleifastofnun Íslands unnið að fornleifaskráningu víða um land og unnið jafnt og þétt að því að bæta skráningarkerfið, geymslu og miðlun gagnanna. Fornleifaskráningu er skipt í svæðis-, aðal- og deiliskráningu.

Frekari upplýsingar má finna hér

UPPGRÖFTUR

Fjölmargir uppgreftir eru gerðir á vegum Fornleifastofnunar á hverju ári. Þar er bæði um að ræða stór verkefni sem eru unnin á mörgum árum og smærri fornleifakannanir sem oft eru gerðar fyrir framkvæmdaaðila, t.d. Vegagerðina eða sveitarfélög og verkfræðistofur sem fyrirhuga byggingar og aðrar stórframkvæmdir.

ÁHÆTTUMAT

Góð skipulags- og hönnunarvinna byggir á þekkingu á landsháttum og áhrifum byggingar á umhverfið. Við sérhæfum okkur í áhættumati á menningarminjum. Hafa samband.

FORVARSLA GRIPA

Við forverjum og skráum gripi. Hafið samband fyrir frekari upplýsingar.

MENNINGARMINJAR OG FERÐAMENNSKA

Okkar fólk hefur mikla reynslu af menningartengdri ferðamennsku. Sjá nánar hér.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
– Í vinnslu.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn starfar í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins. Síða skólans.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna er verkefni sem Fornleifastofnun Íslands hefur tekið þátt í undanfarin þrjú ár ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Síða skólans.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)