FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands5 days ago
Úthlutun úr Rannsóknasjóði.

Tveir sérfræðingar Fornleifastofnunar, Gylfi Helgason og Elín Hreiðarsdóttir, ásamt fyrrum starfsmanni stofnunarinnar, Oscar Aldred, eru meðumsækjendur í verkefninu ‚Eyðibyggðir miðalda‘, sem nýverið hlaut um 60 milljón króna styrk frá Rannsóknarsjóði Íslands. Verkefnið er til þriggja ára og er Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur, verkefnastjóri.

Meginmarkmið verkefnisins er að greina félagslegt samhengi miðaldabyggða sem í eyði fóru á Íslandi, upphaf þeirra og endalok. Við munum nýta gögn úr sögulegum heimildum og safna nýjum gögnum með fornleifafræðilegri vettvangsvinnu víðsvegar um landið: á Austurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi, ásamt því að greina ítarlega gögn sem nú þegar eru til frá Norðurlandi. Enn fremur verða greindir um 5000 staðir í Ísleifu (gagnagrunni Fornleifastofnunar) sem gerir okkur kleift að búa til öflug landslagslíkön með gagnrýninni notkun á landfræðilegu upplýsingakerfi. Verkefnið mun leiða til dýpri skilnings á eyðibyggðum á Íslandi og vonir eru bundnar við að það veiti mikilvægar upplýsingar um þróun búsetuhátta í samfélögum fyrir nútíma sem ætti að vekja áhuga fræðafólks utan landsteinanna.

Verkefnið verður unnið af hópi af fræðimönnum frá Háskóla Íslands, Fornleifastofnun, Háskólanum á Hólum og McDonald. Institute for Archaeological Research, Uni' of Cambridge, ásamt ungu vísindafólki.

Heildarúthlutun Rannsóknasjóðs 2025 má sjá hér https://www.rannis.is/frettir/uthlutun-ur-rannsoknasjodi-styrkarid-2025
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 month ago
Við vekjum athygli áhugafólks um sundmenningu og byggingarsögu á nýútkominni skýrslu um íslenskar sundlaugar frá fyrri hluta 20. aldar, þar sem sjónum er beint að byggingararfi sundlauga á Norðurlandi. Skýrslan er afrakstur rannsókna sem fram fóru sumarið 2024 og eru unnar í samstarfi við Hjörleif Stefánsson arkitekt, fyrir styrk frá Húsafriðunarsjóði. Í skýrslunni er horft til sundlauga og laugarhúsa sem byggð voru fyrir miðja 20. öld. Markmið verkefnisins er að kanna eðli og ástand þessa dýrmæta byggingararfs, sem gegnt hefur lykilhlutverki í sögu sundkennslu og samfélagslífi Íslendinga um langt skeið.
Rannsóknin leiddi í ljós að af 29 laugarhúsum sem byggð voru á Norðurlandi á umræddu tímabili, standa einungis níu enn og eru nokkur þeirra í talsverðri hættu.
Vonir standa til að hægt verði að halda áfram rannsóknum og kanna laugar í öðrum landsfjórðungum á næstu árum. Í þeim tilgangi hefur þegar verið sótt um framhaldsstyrk til Húsafriðunarsjóðs vegna ársins 2025.
Nánar má lesa um verkefnið og niðurstöður í skýrslunni hér:
https://www.researchgate.net/publication/387173157_FS1017-20092_Islenskar_sundlaugar_fra_fyrri_hluta_20_aldar_Sundlaugar_a_Nordurlandi_Husakonnun_2024

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)