FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands5 days ago
Undanfarin ár hefur Fornleifastofnun Íslands unnið að heildarskráningu minja í eyðibyggðum á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda í Suður-Þingeyjarsýslu. Árin 2018-2019 voru minjar skráðar í Fjörðum í Grýtubakkahreppi og í fyrra var skráning unnin á Flateyjardal í Þingeyjarsveit. Á dögunum fékkst svo áframhaldandi styrkveiting úr Fornminjasjóði og er stefnan sett á skráningu í Náttfaravíkum í sumar til þess að ljúka skráningu á því harðbýla og afskekkta svæði. Skráningin hefur fengið styrk úr Fornminjasjóði öll árin og einnig hafa sveitarfélögin styrkt verkefnið með myndarbrag. Markmið skráningarinnar er að fá glögga mynd af búskaparháttum á þessum jaðarsvæðum en saga þeirra er nátengd og mikill samgangur var á milli þeirra. Landgæði voru svipuð og möguleikar til þess að afla sér lífsviðurværis voru mjög áþekkir á svæðunum þó að Náttfaravíkur skeri sig sannarlega úr sökum landþrengsla og erfiðra samgangna. Í Náttfaravíkum voru þrjú lögbýli, Kotamýri (fór í eyði 1910), Naustavík (fór í eyði 1941) og Vargsnes (fór í eyði 1933).
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 week ago
Fornminjar á Njáluslóð er eitt af þeim verkefnum Fornleifastofnunar sem fékk styrk úr Fornminjasjóði í ár. Er það samstarfsverkefni Fornleifastofnunar, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Rangárþings ytra og eystra og Ferðafélags Rangæinga. Markmið þess er að gera sögusvið Njálu aðgengilegra fyrir allan almenning og miðla upplýsingum um valda staði sem koma við sögu og þekktar fornar minjar sem þar er að finna. Með því er verið að samtvinna menningararf sem fólginn er í ritverkum fyrri alda og í jarðföstum minjum sem saman mynda stórbrotið menningarlandslag sem hefur haft áhrif á og mótað ótalmargar kynslóðir Íslendinga. Er litið á þetta verkefni sem fyrstu skref í viðameiri þróun á kynningarefni um Njáls sögu og fjölþættri miðlun menningararfs í Rangárvallasýslu sem hægt verður að heimfæra á önnur svæði. Þátttakendur stefna að því að láta hanna sérstakt smáforrit eða vefsíðu þar sem hægt verður að nálgast viðamiklar upplýsingar um Njáls sögu sjálfa, örnefni, sögu svæðisins, fornminjar, fræðileg álitamál og þannig mætti lengi telja. Verður efnið bæði á íslensku og ensku og mögulega fleiri tungumálum þegar fram í sækir. Sú vinna sem unnin verður í ár fyrir styrk úr Fornminjasjóði byggir á áralangri fornleifaskráningu Fornleifastofnunar Íslands í Rangárþingi ytra, þar sem aðalskráningu er lokið, og í Rangárþingi eystra, þar sem aðalskráning er komin vel á veg.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands2 weeks ago
Forn byggð í Þjórsárdal hefur lengi vakið áhuga fornleifafræðinga. Framan af beindist áhuginn fyrst og fremst að þeim stöðum sem taldir voru bæjarstæði en á síðustu árum hefur kastljósið í æ ríkara mæli beinst að þeim stöðum í dalnum þar sem fólk hafðist við, utan hinna eiginlegu bæjarstæða. Í flestum tilfellum er um fornar mannvistarleifar að ræða en umfang þessara staða er minna en bæjarstæðanna. Líklegt er að þar hafi í flestum tilfellum verið árstíðabundin búseta. E.t.v. er einfaldast að kalla þessa staði nytjastaði (fremur en sel) en slíkir staðir hafa lítt verið rannsakaðir hérlendis. Bergsstaðir í Þjórsárdal falla í þennan flokk. Gjóskulagagreiningar af svæðinu sýna að umsvif á staðnum hefjast stuttu eftir gos í Eldgjá 939 en ekki er ljóst hvenær svæðið fellur úr notkun þar sem öll yngri jarðlög eru blásin burtu. Árið 2020 var grafinn upp lítill öskuhaugur og þrjár soðholur á Bergsstöðum. Í einni þeirra fundust fjölmörg bein úr svartfugli, einkum óbrenndir hryggjarliðir og vængjabein. Rannsóknum var áframhaldið sumarið 2022 og varð þá ljóst að þrátt fyrir mikinn uppblástur er umfang mannvistarlaga á svæðinu mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Á dögunum fékk verkefnið styrk úr Fornminjasjóði fyrir sumarið 2023 en þá verða ógrafin mannvistarlög á svæðinu könnuð auk þess sem unnar verða frjókornarannsóknir. Á Bergsstöðum hafa fundist vísbendingar um járnvinnslu, vefnað/ullarvinnu og kornrækt en í lok sumars fáum við vonandi enn betri upplýsingar um umsvif á staðnum. Rannsóknin er samstarfsverkefni Fornleifastofnunar Íslands, Háskóla Íslands og Minjastofnunar Íslands.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)