FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands11 hours ago
Í janúar 2001 hófu fornleifafræðingar Fornleifastofnunar uppgröft á lóðinni Aðalstræti 14-18 í myrkri og kulda. Tilefnið var endurbygging húsa á lóðunum. Í upphafi var ekki vitað hversu mikilla heillegra minja væri að vænta enda hafði miklu verið raskað í eldri framkvæmdum. Eftir að minjar frá tímum Innréttinganna á 18. öld höfðu verið rannsakaðar var komið niður á vel varðveittar leifar af skála frá víkingaöld. Uppgröfturinn sýndi að búið hafði verið í skálanum á 10. öld en það elsta sem fannst var torfveggur sem hafði verið hlaðinn áður en landnámslagið féll um 871 (877). Almenningur sýndi uppgreftinum mikinn áhuga og varð úr að skálabyggingin var varðveitt í kjallara hússins og gerð aðgengileg á sýningu. Það voru margar áskoranir fólgnar í því að forverja skálann en þetta var í fyrsta sinn sem látið var reyna á að varðveita heila torfbyggingu inni í sýningu. Úr varð skemmtilegt samvinnuverkefni Borgarsögusafns, Gagaríns og forvarða og fornleifafræðinga Fornleifastofnunar þar sem allir lögðust á eitt um það gera hugmyndina að veruleika og sýninguna skemmtilega og áhugaverða. Niðurstaðan er Landnámssýningin Reykjavík 871 ±2 þar sem myndmál, texti og gripir eru notuð á nýstárlegan hátt sem umgjörð um skálann sem er hjartað í sýningunni. Sýningin veitir áhugaverða innsýn í lífið á landnámsjörðinni Reykjavík.

#Fornleifastofnun 25ára #2001 #LandnámsskálinníAðalstræti #LandnámssýninginReykjavík871±2
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands3 days ago
Árið 2000 hófust rannsóknir Fornleifastofnunar á Breiðafirði með gerð könnunarskurða í Bjarneyjum. Síðan þá hefur Fornleifastofnun komið að margvíslegum rannsóknum á Breiðafjarðarsvæðinu og áherslan verið á grunnrannsóknir, þ.e.a.s. gagnaöflun úr heimildum, upplýsingar frá staðkunnugum og skráningu minjastaða. Meðal rannsókna má nefna fornleifaskráningu í Bjarneyjum, Öxney, Hergilsey, Akureyjum, Skáleyjum, Oddbjarnarskeri og í Flatey. Könnunarskurðir hafa verið grafnir á nokkrum stöðum til að varpa ljósi á gerð og aldur minja s.s. í Grettislaug á Reykhólum, á Hofstöðum í Þorskafirði, Hergilsey og Jörfa í Haukadal. Í sumar hófst svo nýtt rannsóknarverkefni í Saurbæ í Dalasýslu sem kallast Staðarhóll - höfuðból í minjum, sögu og bókmenntum, og er styrkt af Ritmenningu íslenskra miðalda. Margar skýrslur og greinar eru til um rannsóknir á svæðinu.

#Fornleifastofnun 25ára #2000 #eyjalíf #Breiðafjörður #Staðarhóll

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)