FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 month ago
Eyðibýlið Hrappsstaðir við Fiská norðan við Þríhyrning er meðal fjölmargra staða sem eru til umfjöllunar í verkefninu Minjar á Njáluslóð. Elsta heimild sem varðveist hefur um Hrappsstaði er líklega Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Í umfjöllun um eyðibýli í Rangárvallahreppi í sama riti kemur fram að eyðibýlið Hrafnsstaðir sé á milli Þorleifsstaða og Reynifells en líkum leitt að því að rétt nafn sé Hrappsstaðir eins og Njáls saga nefnir bústað Víga-Hrapps. Uppruna tilgátunnar um að bær Hrapps hafi verið á þessum stað virðist því að finna í Jarðabókinni snemma á 18. öld. Fornfræðingarnir Sigurður Vigfússon og Brynjúlfur Jónsson töldu Hrappsstaði einnig koma til greina sem bær Starkaðar Barkarsonar en hann bjó ʻUndir Þríhyrningiʼ.
Ekki er vitað hvenær Hrappsstaðir/Hrafnsstaðir byggðust fyrst eða fóru í eyði. Þar eru umfangsmiklar minjar enn varðveittar, þó að Fiská hafi brotið talsvert af túni og undirlendi sunnan við bæinn. Útlit minjanna gefur til kynna að þær séu frá miðöldum en ekki er ólíklegt að fyrsta byggð á þessum stað nái aftur til landnáms- eða þjóðveldisaldar. Í túninu er bæjartóft með stórum húsagarði og þar má einnig sjá afgerandi þúst innan lítils gerðis sem er að líkindum leifar af kirkju og kirkjugarði. Í túninu er einnig stór fjóstóft með tvískiptum heygarði. Umfangsmikið kerfi forngarða er einnig á Hrappsstöðum/Hrafnsstöðum, fágætt dæmi um landnýtingu til forna í Rangárvallahreppi þar sem langvarandi uppblástur og jarðeyðing hefur þurrkað út menningarlandslag á stórum svæðum.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 month ago
Næstkomandi sunnudag verður fyrirlestur um fornleifarannsóknir á Vesturbúðarhól á Eyrarbakka.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 month ago
Komin er út skýrsla um rannsókn í Djúpabotni í landi Bragðavalla í Hamarsfirði sem fram fór sumarið 2022. Á þeim stað hafa fundist víkingaaldargripir í uppblásnum minjum auk rómverskra peninga sem lengi hafa vakið athygli og umræðu. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna hvort einhver mannvistarlög væru enn óröskuð á minjastaðnum sem varpað gætu ljósi á á eðli minjanna og sögu staðarins. Skemmst er frá því að segja að engar mannvistarleifar komu í ljós við rannsóknina. Var þá horft til byggðasögu svæðisins, landshátta og vísbendinga sem hægt er að fá úr brotakenndu gripasafni frá staðnum til þess að setja fram tilgátu um hlutverk hans.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)