FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands10 hours ago
Á hverju ári er unnin fornleifaskráning vegna margvíslegra framkvæmda hér á landi. Slík skráning er hentug til að varpa ljósi á áhrif framkvæmda á fornleifar á afmörkuðum reitum en veitir takmarkaða innsýn í menningarlandslag á stærri svæðum og er í raun léttvægt innlegg fyrir heildaryfirsýn yfir eðli og ástand minja á Íslandi. Til að öðlast slíka yfirsýn þarf að skrá minjar á landinu öllu en í nágrannalöndum okkar er slíkri skráningu víðast lokið og jafnvel búið að fara margar umferðir. Á Íslandi er heildarskráning (stundum nefnt aðalskráning) fornleifa því miður skammt á veg komin. Nokkur sveitarfélög á landinu hafa þó hafið (og í sumum tilfellum jafnvel lokið) slíkri grunnskráningu innan sinna marka og má nefna sveitarfélög í Eyjafirði, Árnessýslu og Rangárvallasýslu í þessu samhengi. Ljóst er þó að stórátaks er þörf til að koma grunnskráningu minja á Íslandi í ásættanlegt horf og á meðan hverfa ár hvert tugir eða jafnvel hundruðir staða í alls kyns umrót (bæði vegna náttúruvár og af mannavöldum). Aðalskráning fornleifa hefur verið eitt af baráttumálum Fornleifastofnunar allt frá upphafi og vinna starfsmenn stofnunarinnar einhverja slíka skráningu fyrir sveitarfélög ár hvert. Þessa dagana eru fornleifafræðingar frá stofnuninni að vinnu við aðalskráningu í Rangárþingi eystra og fylgja hér nokkrar myndir úr skráningunni sem að þessu sinni fer fram undir Eyjafjöllum í stórbrotnu landslagi.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 day ago
Við biðjumst velvirðingar á bilun í vefverslun Fornleifastofnunar en unnið er að lagfæringu. Tilkynnt verður þegar vefverslunin er aftur komin í gagnið

Our web store is not working at the moment. We apologize for the inconvenience and we will announce when it is working again
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands2 days ago
Rannsóknir stofnunarinnar í Ólafsdal í Gilsfirði hófust árið 2016 þegar fornleifaskráning hófst í dalnum að tilstuðlan Minjaverndar, sem unnið hefur að uppbyggingu húsa frá tímum bændaskólans sem var rekinn þar á árunum 1880-1907. Við þá vinnu uppgötvaðist fornlegt rústasvæði innarlega í dalnum, í tungunni milli Ólafsdalsár og Hvarfsdalsár, meðal annars aflöng, skálalaga rúst. Kolefnagreining á sýnum sem tekin voru úr gólfi rústarinnar leiddi í ljós að þessar minjar eru frá víkingaöld, og árið 2018 hófust rannsóknir á svæðinu styrktar af Minjavernd og Fornminjasjóði. Uppgreftri á skálanum er lokið, en einungis virðist hafa verið búið í honum í stuttan tíma, en honum síðar breytt í einhvers konar vinnusvæði og jafnvel geymslu. Síðustu ár hafa rannsóknir færst vestur fyrir skálann þar sem eru frekari mannvirki sem byggð voru við skálann. Í ár hlaut verkefnið enn styrk úr Fornminjasjóði, og nú í júní og júlí er markmiðið að ljúka rannsóknum vestan við skálann. Vonast til þess að þær niðurstöður varpi frekara ljósi á þær breytingar sem verða á nýtingu skálans.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)