FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands4 days ago
Umfangsmikil fornleifaskráning í Rangárvallasýslu hófst með svæðisskráningu fornminja árið 1999, að tilstuðlan Héraðsnefndar Rangæinga. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar; aðalskráning fornminja í Rangárvallasýslu er langt komin og fyrstu umferð vettvangsskráningar er lokið í Ásahreppi og í Rangárþingi ytra. Ómetanlegt gagnasafn um minjar á svæðinu hefur orðið til með skráningunni sem nýtist í þágu rannsókna og samfélagsins til framtíðar. Á grunni aðalskráningar fornminja er hægt að byggja frekari rannsóknir á menningararfinum. Í gegnum tíðina hefur Fornleifastofnun aflað styrkja fyrir fjölbreytt rannsóknarverkefni sem byggja á gögnum úr fornleifaskráningu í Rangárvallasýslu. Má þar nefna rannsókn á eyðibyggðinni við Heklurætur (FS482), rannsókn á uppblásnum minjum í Drumbabót (FS586) og þróun aðferða við skráningu uppblásinna fornminja með aðstoð flygilda (dróna) (FS633). Nýhafnar rannsóknir í Odda á Rangárvöllum sem styrktar eru af sjóðnum Ritmenning íslenskra miðalda byggja einnig að miklu leyti á fornleifaskráningu sem fram fór á jörðinni 2009. Skýrslur um þessi verkefni sem hér hafa verið nefnd og fornleifaskráninguna má finna á vefsíðu stofnunarinnar fornleif.is en einnig má lesa greinar um eyðibyggðina við Heklurætur í Archaeologia Islandica 11 frá 2015 og í Goðasteini frá 2013.
#Fornleifastofnun25ára #1999 #Skráningmenningararfsins #Aðalskráningfornleifa #Heklurætur #Rangárþingytra #Rangárþingeystra #Ásahreppur #mjórermikilsvísir
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands7 days ago
Árið 1998 hófust rannsóknir í Neðra Ási í Hjaltadal og þá um sumarið og árið á eftir voru grafnar þar upp leifar kirkju og kirkjugarðs frá frumkristni á Íslandi. Verkefnið var samvinnuverkefni Þjóðminjasafns Íslands og Fornleifastofnunar og hvatinn var m.a. frásögn íslenskra miðaldarita um kirkjugerð Þorvarðar Spak‒Böðvarssonar þar árið 984. Við uppgröftinn komu ljós þrjár kirkjubyggingar sem höfðu verið í notkun hver á eftir annarri frá því í kringum 1000 og fram til miðrar 13. aldar. Grafreitur var í kringum kirkjuna en hætt var að jarðsetja fólk þar laust eftir 1100. Eftir að kirkjan brann á 13. öld var gert verkstæði í kirkjutóftinni og enn síðar byggð fjárhús á sama stað. Fjárhús þessi voru ætíð nefnd „Bænhúsið“ enda sáust merki hringlaga kirkjugarðs umhverfis þau. Rannsóknin á Neðri-Ási varpar ljósi á frumkristni hér á landi og breytingar á trúarsiðum, bæði við kristnitöku en einnig á fyrstu öldum kristni. Ítrarleg grein um uppgröftinn er væntanleg í Árbók hins íslenzka fornleifafélags í lok árs.
#Fornleifastofnun25ára #1998 #Kirkjur #NeðriÁs #Þjms

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)