FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands2 days ago
Fornleifaskráning í Náttfaravíkum sem fram fór sumarið 2023 var hluti af verkefninu Eyðibyggðir á ystu annesjum Þingeyjarsveitar en það var styrkt af Fornminjasjóði og Þingeyjarsveit. Líkt og á við um aðrar eyðibyggðir sem skráðar hafa verið síðastliðin ár á milli Eyjafjarðar og Skjálfanda, eru Náttfaravíkur afskekkt og harðbýl sveit en þar er mun minna undirlendi en annarsstaðar þar sem byggð var með ströndinni og landbúnaði því settar miklar skorður. Byggðin þreifst ekki síst á sjósókn og voru verstöðvar í Rauðuvík, Skálavík og Naustavík fyrr á öldum. Minjar í Náttfaravíkum eru í mikilli hættu vegna viðvarandi náttúruvár, einkum landbrots og skriðufalla. Litlar minjar eru orðnar eftir um sjósókn af þeim sökum og þegar hafa ýmsar landbúnaðarminjar horfið undir jarðvegsskriður. Engu að síður er varðveisla minja á svæðinu með besta móti vegna þess hversu lítið rask hefur átt sér stað af manna völdum við túnasléttun, skurðgröft, vegagerð og byggingaframkvæmdir. Það sem helst kom á óvart í skráningunni var áður óþekkt fornbýli í landi Naustavíkur sem virðist hafa farið í eyði snemma á miðöldum. Býlið er nokkuð hátt í landinu, ofan við ströndina, og því tilheyra nokkuð umfangsmiklar minjar. Má þar nefna bæjartóft, meintan kirkjugarð með bænhúsi, túngarð, meint fjós, heygarð og vörslugarð. Sætir þessi fundur nokkrum tíðindum og getur hann varpað ljósi á elstu byggð í Náttfaravíkum og þróun hennar. Í nýútkominni skýrslu um skráninguna er líkum leitt að því að umrætt fornbýli hafi verið frumbýli á svæðinu og að land þess hafi náð yfir lönd lögbýlanna þriggja sem þar byggðust síðar, Kotamýra, Naustavíkur og Vargsness. Hér er hægt að kynna sér skráninguna og helstu niðurstöður rannsóknarinnar: https://www.researchgate.net/publication/398781810_Eydibyggd_a_ystu_annesjum_THingeyjarsveitar_II_-_Nattfaravikur
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands6 days ago
Þingstaðarannsóknir á Íslandi eiga sér langa sögu sem hófst á 18. öld með athugunum Árna Magnússonar handritasafnara en fóru á flug undir lok 19. aldar og voru undir áhrifum af sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og aðdáun á þjóðveldisöldinni. Aftur kom kippur í þingstaðarannsóknir undir lok 20. aldar og upp úr síðustu aldamótum þegar rannsóknaruppgreftir fóru fram á nokkrum þekktum þingstöðum og eldri hugmyndir um þingstaði þjóðveldisaldar voru teknar til endurskoðunar. Enn er verið að rannsaka þingstaði og var að koma út skýrsla um verkefnið Þing í Skaftafellssýslu (sjá meðfylgjandi hlekk). Í skýrslunni er gerð grein fyrir rannsókn á meintum þingminjum við Þinggil og í Haugatungum í Skaftártungu og skráningu friðlýstra þingminja á Leiðvelli í Meðallandi. Á Leiðvelli eru illa farnar en nokkuð umfangsmiklar leifar af þingbúðum og bendir nafn staðarins til þess að þar hafi farið fram leiðarþing, eða haustþing, að loknu Alþingi. https://www.researchgate.net/publication/398650751_THING_I_SKAFTAFELLSSYSLU_-_RANNSOKN_A_LEIDVELLI_OG_MEINTUM_THINGSTODUM_I_SKAFTARTUNGU
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands3 weeks ago
Fornleifastofnun Íslands og Gullinsnið luku nýverið umfangsmikilli húsakönnun í Grímsey sem unnin var á árunum 2021-2023. Rannsóknin fólst meðal annars í heimildaúttekt og húsakönnun sem náði til allra íbúðarhúsa í eyjunni og annarra bygginga sem reistar voru fyrir 1960. Einnig voru tekin saman gögn um fjölda horfinna húsa. Samhliða úttekt á byggingararfi 20. aldar var gerð tilraun til að draga upp heildstæða mynd af síðustu torfbæjum Grímseyjar og byggði sú vinna á úttektum, brunavirðingum og ljósmyndum. Á grundvelli þeirra voru gerðar tilgátuteikningar af torfbæjunum sem varpa ljósi á húsagerð þeirra á síðustu öldum.
Verkefnið veitir innsýn í þróun byggðar í Grímsey, frá torfbæjum til timburhúsa og síðar steinsteyptra húsa. Niðurstöður sýna að húsagerð í eyjunni mótaðist af ýmsum þáttum svo sem veðurfari, aðstæðum og samfélagsbreytingum á 20. öld, en í megindráttum fylgdi hún engu að síður almennum þróunarlínum í íslenskri byggingarhefð.
Í verkefninu felst nokkurt nýnæmi í húsakönnun, því þar er eldri og yngri byggingararfur borinn saman á myndrænan hátt og dregin fram samfella og breytingar í byggð á rúmum tveimur öldum. Rannsóknin var unnin í samstarfi við Minjasafnið á Akureyri og hlaut styrk úr Húsafriðunarsjóði og frá Akureyrarbæ.
Lokaskýrsla verkefnisins, Híbýli í Grímsey: Húsakönnun og byggingararfur, kom út nýverið og áhugasamir geta nálgast skýrsluna hér:
https://doi.org/10.13140/RG.2.2.19643.89123

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)