FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands2 days ago
Vesturbúðin á Eyrarbakka er samheiti yfir stærstu þyrpingu verslunarhúsa á Íslandi frá einokunartímanum (með síðari tíma viðbótum). Flest bendir til að fyrir miðja 17. öld hafi verslunarbúðirnar verið í landi Einarshafnar fornu, vestan við þorpið en það svæði er illa farið vegna ágangs sjávar og engar minjar er þar að finna. Á Vesturbúðarhól stóðu verslunarhús Eyrarbakkaverslunar frá fyrri hluta 18. aldar og allt fram til ársins 1950 þegar húsin voru rifin og allir viðir úr þeim fluttir burtu. Í Vesturbúðarhól er því að finna einu varðveittu leifarnar af verslunarstaðnum á Eyrum/Eyrarbakka og eru minjarnar því stórmerkar. Vesturbúðarfélagið hyggur á uppbyggingu dönsku verslunarhúsanna eins og þau litu út um 1920, þegar þau hættu að sinna hlutverki sínu sem helsta verslun Sunnlendinga. Markmiðið er m.a. að auka við þekkingu á sögu verslunar á Íslandi sem og sögu Eyrarbakka. Fornleifarannsóknir í Vesturbúðarhól eru forsenda þessara hugmynda enda þarf að kanna þær minjar sem þarna eru áður en hægt er að byggja frekar á svæðinu. Uppgröfturinn veitir einnig nýja og spennandi innsýn í verslunarsöguna sem verður hægt að byggja á í sýningarhaldi og fræðslu. Nú í maí verður grafið í Vesturbúð en þetta er fjórði áfangi rannsókna á svæðinu. Uppgröfturinn mun standa yfir í tvær vikur og stefnt er að því að halda rannsóknum áfram á tveimur vörugeymsluhúsum.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands4 days ago
Rannsókn á manngerðum hellum í Odda verður fram haldið í sumar en verkefnið hlaut áframhaldandi styrk úr Fornminjasjóði í ár. Markmið rannsóknarinnar er að grafa út annan af tveimur gríðarstórum, hrundum hellum sem eru syðst í túninu í Odda. Í fyrrasumar kom óvænt í ljós stórt, torfhlaðið hús í hellistóftinni sem virðist vera af fjósi. Það var líklega byggt á tímabilinu 1158-1250 en komið úr notkun seint á 15. öld. Til þess að hægt sé að komast í að grafa upp hrunda hellinn þarf að ljúka við að rannsaka þetta nýfundna hús en það er ekki síður áhugavert rannsóknarefni. Framan við það er gryfja, safnþró fyrir mykju, en neðst í henni fannst hrossgröf sem bendir til einhvers konar fórnarathafnar í tengslum við byggingu hússins og gerð gryfjunnar. Eru mörg önnur dæmi um dýrabeinafundi í hellakerfinu í Odda sem hafa verið túlkuð sem fórnir. Hellarannsóknin í Odda mun veita upplýsingar um elstu gerð manngerðra hella hér á landi, hvernig farið var að þegar þeir voru fyrst grafnir út, hvernig hellagerðin og notkun hellanna þróaðist í tímans rás og til hvers þessi gríðarlega stóru mannvirki í Odda voru notuð.
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands1 week ago
Sumarið 2023 fór fram fornleifaskráning í Náttfaravíkum, afskekktri og harðbýlli sveit við Skjálfanda þar sem stutt var á góð fiskimið. Útræði var forsenda þess að fólk gat sest að á þessu svæði en einnig var legið við í veri og voru verbúðir í Naustavík, Skálavík og í Rauðuvík. Engar verminjar sjást í tveimur fyrstnefndu víkunum en í Rauðuvík má enn greina leifar af verbúðum. Örnefnaskrá fyrir svæðið greinir frá allt að 18 tóftum af sjóbúðum á sjávarbakkanum en þegar fornleifaskráning var unnin fundust aðeins sex tóftir á svæðinu og er ljóst að mjög virkt landbrot er á þessum slóðum. Með samanburði á gömlum loftmyndum má sjá að allt að 20 m hafa brotnað af undirlendinu framan við minjarnar í Rauðuvík á síðustu 30 árum og því ljóst að nú eru að verða síðustu forvöð til þess að fá afla upplýsinga um þessar merkilegu verminjarnar sem virðast einu minjarnar af þessu tagi á allri strandlínunni frá Eyjafirði að Skjálfanda. Í vor fékkst styrkur úr Fornminjasjóði til að gera forkönnun á svæðinu. Farið verður á vettvang í júlí og er stefnt að því að beita ýmsum aðferðum til að afla sem ítarlegastra upplýsinga um svæðið á sem skemmstum tíma. Rofsnið í tóftir verða hreinsuð upp og teiknuð og rofbakkarnir í kringum tóftirnar einnig kannaðir í leit að mannvist. Að auki verður leitað að mannvist á sjávarbakkanum með kjarnabor. Stefnt er að því að taka sýni úr gjóskulögum eða til C14 greiningar til að freista þess að aldursgreina minjarnar. Niðurstöður rannsókna sumarsins verða svo notaðar til að kanna fýsileika þess að vinna frekari rannsóknir á svæðinu á næstu árum.

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)