FRÉTTIR

Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands3 days ago
Eitt af stærri verkefnum ársins 2009 var fornleifarannsókn vegna framkvæmda við gömlu höfnina í Reykjavík. Rannsóknirnar náðu yfir stórt svæði milli Hafnarstrætis og Tryggvagötu, austan Pósthússtrætis. Ýmsar minjar komu í ljós, einkum frá 19. öld og fyrri hluta þeirrar 20. Meðal þeirra voru bryggjur, húsgrunnar/kjallarar pakkhúsa kaupmanna og hluti gamla hafnargarðsins sem er líklega sá elsti af nokkrum sem gerðir voru á þessum slóðum. Verkefnið var eitt af mörgum eftirlits- og uppgraftarverkefnum sem Fornleifastofnun hefur unnið á undanförnum áratugum vegna gatnaframkvæmda og uppbyggingar í miðbæ Reykjavíkur. Fornleifarannsóknir eru orðnar hluti framkvæmdum borgarinnar og með slíkum rannsóknum er á hverju ári safnað mikilvægum upplýsingum um sögu Reykjavíkur allt frá landnámi og fram á 20. öld. Skemmst er að minnast Steinbryggjunnar, sem hafði verið hulin jarðvegi og malbiki um langt skeið, en fornleifafræðingar Fornleifastofnunar grófu fram árin 2018-19 vegna framkvæmda. Borgaryfirvöld ákváðu í kjölfarið að hún yrði aftur hluti menningarlandslags Reykjavíkur og áningarstaður þar sem hægt er að fræðast um sögu Reykjavíkur og þróun þéttbýlismyndunar á þessum slóðum og var hún opnuð sem slík á þessu ári.
#Fornleifastofnun25ára #2009 #borgarmyndunReykjavíkur #sagaReykajvíkur #framkvæmdaeftirlit
Fornleifastofnun Íslands
Fornleifastofnun Íslands6 days ago
Fáum minjaflokkum hér á landi er eins bráð hætta búin og minjum við sjávarsíðuna sem hverfa nú á áður óþekktum hraða vegna sjávarrofs. Á Gufuskálum á norðanverðu Snæfellsnesi var verstöð til forna og um aldir. Minjarnar eru friðlýstar en eru þó óðum að hverfa vegna sjávarrofs. Sú hætta sem steðjar að minjunum var ástæða þess að Fornleifastofnun fékk leyfi til uppgraftar þar árið 2008 en að öllu jöfnu veitir Minjastofnun Íslands ekki leyfi til uppgraftar á friðlýstum minjum. Á næstu árum, allt til 2015, fór fram umfangsmikill björgunaruppgröftur á hluta svæðisins sem m.a. var styrktur af Bandaríska vísindasjóðnum, Fornminjasjóði og Þjóðhátíðarsjóði. Fornleifarannsóknin á Gufuskálum er langstærsta verkefnið sem ráðist hefur verið í á sviði rannsókna á útvegsminjum hér á landi, jafnvel þótt enn sé stærstur hluti minjanna ógrafinn (en undanþága uppgraftarleyfis náði aðeins til ársins 2015). Rannsóknir á Gufuskálum hafa leitt í ljós að þar voru umfangsmiklar byggingar og má ætla að þar hafi dvalist hundruð manna í verbúðum á 15.-17. öld. Auk gríðarlega stórs dýrabeinasafns frá svæðinu fundust margir skemmtilegir gripir á Gufuskálum sem vitna um félagslífið í verbúðunum s.s. teningar, taflmenn og kotrutöflur. Unnið er að úrvinnslu uppgraftargagna frá Gufuskálum og útgáfu en greinar um uppgröftinn hafa m.a. birst í Árbók hins íslenzka fornleifafélags 2015 og í greinarsafninu Public Archaeology and Climate Change sem kom út hjá Oxbow í lok árs 2017.
#Fornleifastofnun25ára #2008 #Gufuskálar #björgunarrannsóknir #minjaríhættu

ÚTGÁFA

Smelltu á titlana til að sjá verkefnin.

Bókaskrá.
Ritrýnt fræðirit.
Rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom fyrst út í nóvember 1998. Með útgáfu ritsins er stefnt að því að kynna alþjóðlegum lesendahópi fornleifarannsóknir á Íslandi. Ritið birtir nýjar greinar um íslenska fornleifafræði eða efni tengt henni, allt frá landnámi á 9. öld til síðari tíma. Greinarnar eru á ensku. Ritstjóri er Orri Vésteinsson.
Hér má finna nýjustu rannsóknaskýrslur okkar.

MENNTUN

Fornleifaskólinn

Fornleifaskólinn var settur á stofn árið 1997, og hefur verið starfræktur á nær hverju sumri síðan þá. Hlutverk skólans er að auka þekkingu íslenskra og erlendra nemenda á íslenskri fornleifafræði. Nemendur, hvaðanæva úr heiminum hafa tekið þátt í námskeiðum skólans þar sem þeim eru kennd undirstöðuatriði íslenskrar fornleifafræði. Skólinn hefur starfað í 4 vikur á hverju sumri og fá nemendur þjálfun í uppgrefti og fornleifaskráningu en einnig er kennt með fyrirlestrum, málstofum og verklegum tímum í umsjá fornleifafræðinga og annarra vísindamanna. Þátttakendur í fornleifaskólanum þurfa að hafa hafið nám í fornleifafræði og einnig er æskilegt að áhugasvið þeirra tengist íslenskri fornleifafræði, eða fornleifafræði Norður-Atlantshafsins.

Nánari upplýsingar komar síðar hvenær skólinn verður haldinn næst.

Fornleifaskóli barnanna

Fornleifaskóli barnanna var verkefni sem Fornleifastofnun Íslands tók þátt í ásamt samstarfsaðilum úr Litlulaugaskóla í Reykjadal, Hinu þingeyska fornleifafélagi og fornleifafræðingum við Hunter og Brooklyn Háskóla í New York. Skólinn hefur einnig verið haldinn við Odda á Rangárvöllum í samvinnu við Oddafélagið.

Háskóli Íslands

Fornleifastofnun Íslands tók virkan þátt í stofnun fornleifasviðs við Háskóla Íslands og hefur haldið uppi sterkri samvinnu síðan. Heimasíða sviðsins má finna hér.

UM OKKUR

Fornleifastofnun hefur sett sér metnaðarfull markmið um hágæðarannsóknir á sviði íslenskrar fornleifafræði. Stofnunin hefur einsett sér að vera í fararbroddi vísindalegra rannsókna á íslenskum fornleifum og nær þeim markmiðum með öflugum grunnrannsóknum, nánu samstarfi við innlenda og erlenda vísindamenn og rannsóknarstofnanir, og virkri akademískri umræðu sem meðal annars birtist í öflugu útgáfustarfi. Okkar fólk.

Gagnagrunnur okkar, ÍSLEIF, hefur upplýsingar :

0 Fornminjar á landinu.

(er langstærsta safn sinnar tegundar hér á landi)